Góð tillaga hér á ferð.

Ég er fljótt á litið mjög hrifinn af þessari tillögu.

Púkinn í mér segir reyndar; "Af hverju kom þessi tillaga fram miklu fyrr hjá Framsókn?".

En við sussum á svona þanka. Nú eru allir samstíga í því að vinna okkur út úr erfiðleikunum.


mbl.is Verðtrygging verði 4% að hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsagt fyrsta skref.

Lýsir ríkisstjórn sem starfar af stefnufestu og dugnaði. Þorir að taka erfiðar ákvarðanir. Reynir að hlífa þeim sem minnst mega sín. Hækkar gjöld á vöru sem er óheilsusamleg. Hækkun á eldsneyti á bíla leiðir vonandi til þess að við minnkum óþarfa akstur og drögum þar með úr megnun.

Ég bara skil ekki geðveikisleg viðbrögð fólks við þessu. Trúlega er það sama fólkð og segir að ríkisstjórnin geri ekki neitt.


mbl.is Mjög óvinsælar aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöðugleiki og örugg framtíðarsýn á Seyðisfirði!

Meirihluti bæjarráðs Seyðisfjarðar skrifaði bókun í fundargerð ráðsins fyrr í mánuðinum. Hljómar bókunin svona í ..... nafni:

"Meirihluti bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þeirrar miklu óvissu sem skapast um fiskveiðistjórnunarkerfið með hugmyndum stjórnvalda um svokallaða fyrningarleið.  Meirihluti bæjarráðs Seyðisfjarðar varar því sterklega við því að sú leið verði farin og hvetur stjórnvöld til að standa tryggan vörð um stöðu og framtíð sjávarbyggðanna ekki síst  í ljósi þess að aldrei hefur verið mikilvægara en nú að stöðugleiki og trygg framtíðarsýn ríki í fiskvinnslu og útgerð á Íslandi."

Þessi skrautlega bókun vekur óneitanlega upp ýmsar spurningar:

Hefur kvótakerfið tryggt stöðu og framtíð sjávarbyggðanna um land allt?

Hefur kvótakerfið og önnur efnahagsstjórn landsins undanfarin ár skilið sveitarfélögin vel stæð og tryggt íbúum landsbyggðar athafnafrelsi og atvinnuöryggi, eða eru kannski sveitarfélög á borð við Seyðisfjörð skuldum vafin og eignir fólks verðlitlar?

Það er afar skrítið að lesa þessa bókun ráðsins, en ekki orð um það að í raun er Seyðisfjörður gjaldþrota.  Undarlegt að bæjarráð sjái ekki að athafnafrelsi í sjávarútvegi er eina von sjávarbyggðanna. Hvernig fer það með atvinnugreinina ef fjármagnið er endalaust tekið út úr greininni?  Þess vegna eru flest útgerðarfyrirtæki í sömu stöðu og Seyðisfjörður: Tæknilega gjaldþrota. Af hverju má ekki endurskoða þetta fyrirkomulag?

Hvernig geta menn sem á stundum kenna sig við flokk sem standa vill vörð um athafnafrelsi einstaklingsins, varið kerfi sem hefur verið úrskurðað Mannréttindabrot því það mismunar fólki? 

 


Pólitíkin - sleggjudómar.

Þá koma sleggjudómar mínir um pólitíkina.

Borgarahreyfingin og nefndamálið.

Borgarahreyfingin fær prik fyrir að fara í nefndakjör með stjórnarflokkunum. Þeir átta sig á að til að hafa áhrif þarf að semja og vinna með öðrum.  Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fá 3 mínusa. Sjálfstæðisflokkur bara einn, en Framsókn 2. Framsókn tapar áliti á að vera spyrrt með sjálfstæðisflokknum einum í stjórnarandstöðu.

ESB málið afgreitt með þingleiðinni.

Málið leit á tíma út fyrir að vera vandræðalegt fyrir ríkisstjórnina.  Þessi leið hins vegar sýnir virðingu fyrir þingræðinu og færir lendingu málsins inn í hringiðu almennrar umræðu.  Þetta mál gæti orðið hræðilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Þeir geta ekki frestað því áfram að taka afstöðu.  Framsókn aftur á móti gæti aukið álit sitt með því að fjalla um málefnalegar hliðar þess.  Bjarni Benediktsson telur það veika stjórn sem eftirlætur Alþingi að móta stefnu landsins í mikilvægu máli.   Með þessu er Bjarni að staðfesta það að hann hefði unnið eins og Davíð og Halldór í Íraksmálinu og öðrum málum sem voru ákveðin utan þings og pressað gegnum Alþingi með valdboði ráðherranna.  Ég held að Bjarni sé á fyrstu vikum sínum í starfi formanns Sjálfstæðisflokksins búinn að klúðra sínum trúverðugleika.

Framsókn og Framsóknarherbergið.

Málið er ekki til álitsauka fyrir Framsóknarflokkinn. Það ætti ekki að vera tilfinngamál fyrir flokkinn að skipta um herbergi?  Þetta er jú nýja Framsókn.  En nýja Framsókn er með nýja þingmenn sem jafnvel sumir eru erfingjar gömlu Framsóknar.  Dæmi Gummi sonur Steingríms og Simmi sonur Gulla.

Stjórnin og Drekasvæðið.

Vinstri grænir lentu í krísu daginn fyrir kosningar út af ummælum um Drekasvæðið.  Nú í dag er komið fyrsta tilboðið í rannsóknarleyfi.  Væntanlega heldur þetta mál áfram á óbreyttum hraða, þrátt fyrir að umhverfisráðherra sé úr röðum VG.  Þetta mál er ágætt dæmi um ys og þys út af engu í Íslenskri pólitík.  Er ekki álitshnekkir fyrir neinn,  nema óvandaðan málflutning,  sem reyndar virðist oft hafa töluverð áhrif á kjósendur á Íslandi.

Þingsetning, bindisskylda og messa.

Mér finnst í sjálfu sér ágætt að afnema bindisskyldu í þinginu.  Eðlilegt er að í stað þess sé áskilinn snyrtilegur klæðnaður.  Aðalhlutverk Alþingis er löggjafarstörf.  Ekki formlegheit og málamyndasamkoma.  Öðru máli gegnir um messuna.  Ég tel að kristin trú sé hluti af okkar menningararfleifð og menningu.  Alþingismenn eru ekki að fara í messu til að afhenda vald sitt kirkjunni.  Þjóðkirkjan og Alþingi eru ásamt tungunni og sögunum, meginstuðlar í okkar menningu.  Þessi hefð er góð hefð og mér finnst gott að meginþorri Alþingis virðir þessa hefð.

Ríkisstjórnin og heimilin.

Umræðan um hagsmuni heimilanna hefur verið erfið fyrir ríkisstjórnina.  Það blasir við að það þarf að skera niður í ríksibúskapnum.  Slíkt hlýtur að koma niður á þjónustu við almenning og kjörum fólks.  Á sama tíma eru miklar kröfur um að ríkisstjórnin taki á málefnum skuldsettra heimila.  Úrræði í þeim málum virðast vera flókin og vafasamt að unnt sé að koma til móts við þá sem verst eru settir.  Ríkisstjórnin hefur sett upp gátlista sem vinna skal að næstu 100 daga.  Verið er að skoða málefni skuldsettra heimila sérstaklega á vegum ríkisstjórnarinnar.  Þangað til búið er að kynna frekari úrræði verður þetta mál í stöðugri umræðu og spurt hvenær málin verði leyst.   Ég spái því að þessi vandamál séu í mörgum tilvikum svo erfið að ýmsir verði óhjákvæmilega ósáttir við lendinguna í málinu.

 

 


Er allt á vonar völ og doða hér?

Ég hef stundum heyrt því fleygt að ástæða hningnunar Seyðisfjarðar undanfarna áratugi sé einkum og sér í lagi sú að enginn geri neitt og allt frumkvæði vanti í bæjarbúa. 

En er þetta hin raunverulega ástæða fyrir hningun og fólksfækkun hér á Seyðisfirði?

Ég hef mikið hugsað um þetta mál og hallast nú æ meir að hinu gagnstæða.

Þegar ég hugsa um þetta mál, kemur í hugann tilraunir margra einstaklinga til að halda áfram rekstri starfsemi sem hefur verið og eins að byrja ný fyrirtæki.  Sum þessi fyrirtæki eru aðeins eins manns starf eða jafnvel hlutastarf. Sum þessara fyrirtækja hafa ekki staðið undir sér og hætt, af ýmsum ástæðum.

Í sjávarútvegi man ég sem dæmi eftir frystihúsinu Brimbergi, en þar tóku heimamenn við rekstri frystihússinns sem leggja átti niður. Ég nefni einnig hér nýstofnað útgerðarfélag línubáts sem er að hefja starfsemi.  Ég minni einnig á Þvottatækni sem er að beina kröftum sínum að tankahreinsun með nýrri tækni.

Í iðnaði og verktakastarfsemi er PG stálsmíði, Arnarkló og Landsverk. Einnig er í bígerð að koma upp hér álstrengjaverksmiðju, verið að kanna grundvöll fyrir vatnsverksmiðju og einnig hefur staðurinn verið settur í athugun vegna netþjónabús.

Í ferðaþjónustu og menningarstarfsemi man ég eftir Seafishing Iceland, Skálanesi, Grabar, Skaftfell, Gestbæ, Kobbi og Ljósbrá, Óla Mæja, uppbygging Tækniminjasafnsins, Gallerí Vigdísar Helgu, Handverksmarkaði handverkshópsins, Starfsemi Skaftfells, Hótel Aldan, Seyðisfjarðarbíó, heilsárssiglingar ferjunnar, stórfelld fjölgun skemmtiferðaskipa, Minicine bíókaffihúsið, vélsleðaleiga og kajakaleiga Hlyns.

Í verslunarrekstri man ég eftir versluninni Prýði, Kjólaverslun Dúlludætra, verslunin Ósk og ýmsir aðilar hafa reynt að reka hér bókabúð.

Þjónustufyrirtæki eru hér Sagnabrunnur, Arkitektastofuna Argo, Skrifstofuþjónusta Austurlands, Ultratone og Prenthylki.is, svo nokkur dæmi séu nefnd af því sviði.

Sum þessara fyrirtækja hafa notið einhvers konar fyrirgreiðslu bæjarfélagsins, og einhver þeirra hafa sótt eftir aðstoð Byggðastofnunar og annarra opinberra aðila sem hafa það hlutverk að örva atvinnulífið.

Samkvæmt mínum heimildum er reynsla þeirra af því að leita opinberrar aðstoðar við þróun eða markaðssetningu slæm. Þau hafa litla aðstoð fengið, eytt í það miklum tíma að leita aðstoðar og síðan virðist styrkurinn fara nær alfarið í kostnað við aðstoðina.

Ég held að aðstoð við nýsköpun á Íslandi sé ómarkviss og þeir aðilar sem eiga að hlú að svokölluðum sprotafyrirtækjum veiti þeim ekki þá stoð sem þarf.


Austurlandsmót í sveitakeppni.

Nú um helgina var spilað Austurlandsmót í sveitakeppni í bridge á Reyðparfirði. Þátt tóka 8 sveitir og eins og lög gera ráð fyrir réðust úrslitin í síðustu umferðinni.

Sveit Óttars Ármannssonar varð hlutskörpust, en með honum voru Hafþór Guðmundsson, Jónas Ólafsson og Ævar Ármannsson.

Í öðru sæti varð sveit Haustaks. Þeir eru Pálmi og Stefán Kristmanssynir, Sigurþór Sigurðsson og Magnús Ásgrímsson.

Í þriðja sæti varð sveit Brimbergs. Þeir eru Kristinn Valdimarsson, Einar Hólm Guðmundsson, Unnar Jósepsson og undirritaður.


Af Epson Acculaser.

Einn ágætur prentari á skrifstofum vorum nefnist Acculaser Epson.  Hefur hann dugað ágætlega en verið illa starfshæfur nú um langa hríð. Hefur tekið djamm og þau mörg á dag.  Var ég búinn að reyna að koma tauti við hann og hótaði honum margsinnis að senda hann suður í meðferð.  Af því varð þó ekki.

Ég bar mig aumlega við Ólaf Vigni sem hér kom um daginn og fékk hann til að ræða við Acculaser.

Kom þá í ljós að svokallaður Fuser Unit var slitinn í honum og afréðum við að panta nýjan slíkan.

Nú í dag er varahluturinn kominn í og herra Epson leikur við hvern sinn fingur og er eins og nýr.

Burt er hiksti hóst og stam,

hefur læknast prentarinn.

Hér er naumast nokkurt djamm.

- Naskur Óli vinur minn.


Efst á Baugi í dag.

Eins og almenningi er kunnugt hefur mikið verið um að vera á Seyðisfirði undanfarið.

Þess vegna er gleðilegt og gaman að segja frá því, að það nýjasta í fréttunum tengist alls ekki Seyðisfirði.

Búið er að finna áður óþekkta manntegund.

smámenniUm er að ræða svokallað smámenni, sem fannst í Indónesíu. Þessi manngerð er alls ekki það sama og lítilmenni, sem alls ekki tengist Seyðisfirði heldur.

En þegar ég var að punkta þessa frétt hjá mér kom fram fregn um nýja fugl í dýraríki lands okkar. Fugl þessi hefur ekki sést hér á landi fyrr en núna en hann mun hafa flogið fyrir glugga Seyðfirðinga nýverið.

Nefnist fogl þetta herfugl.

herfugl

 


Fyrripartur

Margur api varð af aurnum

eitt sinn var sagt í stöku...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Halldór Guðmundsson

Höfundur

Jón Halldór Guðmundsson
Jón Halldór Guðmundsson
Höfundur er áhugamaður um landsmál og lífið í kringum sig.

Spurt er

Hvaða Austfirðing muntu kjósa á stjórnlagaþing?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 134456

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Tónlistarspilari

- Kvöldljóð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband