Bjólfsgata 7 100 ára

Á þessu ári eru liðin 100 ár frá byggingu þessa húss.  Þetta er Bjólfsgata 7 á Seyðisfirði.

BjolfsgataÞetta hús, sem Stefán Th Jónsson athafnamaður byggði á Seyðisfirði, þegar Seyðisfjörður gegndi á margan hátt forystuhlutverki á landsvísu, er byggt í nýklassískum stíl.

Hvort sem litið var til verslunar, eða ýmisskonar iðnaðar, eða menningar og útgáfustarfsemi, voru margir forrystumenn með aðsetur í þessum bæ.

Einkum var Seyðisfjörður framarlega hvað ýmsar tækninýjungar varðar.

Í þessu húsi var Stefán með verslun um árabil.  Íbúðarhús Stefáns stendur hinum megin við götuna og er það sömuleiðis hið glæsilegasta. Það er skilgreint sem hús byggt í Sveitser stíl.

Síðan eru liðin mörg ár og húsið hefur hýst skrifstofu fiskvinnslu og útgerðar, tannlæknastofur, prentsmiðjur, bæjarskrifstofur og loks skrifstofu Sýslumanns.

Nú er þar skrifstofa Sýslumannsins á Seyðisfirði.  Sysluskrifstofa_1 

Árið 1998-9 fóru fram gagngerðar endurbætur á húsinu og þykir mörgum þetta eitt glæsilegasta hús landsins, jafnt að utan- sem innanverðu.  Arkitektar að endursmíði hússins voru Björn Kristleifsson og Þóra Guðmundsdóttir. 

Nánar um gömlu glæstu húsin á Seyðisfirði má finna á þessari slóð:

 http://www.sfk.is/gamli/ferdamal/gengidumgamlabaeinn-isl.pdf


Sterkur stuðningur við gamla ríkið.

seyðisfjörðurSamkvæmt skoðanakönnun sem fór fram á þessari síðu og almennri umræðu á Seyðisfirði og í bloggsamfélaginu er mikill vilji almennings til að Gamla húsinu, sem hýsti vínbúð Ausurlands um árabil verði sýndur fullur sómi og húsið endurbætt.

Flestir vilja að þar verði vínbúð á ný og vitað er að stærð hússins býður upp á að þar verði jafnframt önnur starfsemi.

Margir hafa nefnt að þetta sé upplagt sem safn og benda á að í húsinu eru nú elstu verslunarinnréttingar á Íslandi, sem hafa þvi mikið menningarsögulegt gildi. 

Ýmsir hafa bent á að þar geti verið verslun eða veitingasala.  Þá gæti farið vel að hafa þarna upplýsingamiðstöð og efri hæð hússins mætti vel nýta sem íbúð, svo eitthvað sé nefnt.

Verkefnið um Aldamótabæinn á Seyðisfirði hefur tekist vel, en þó að það verkefni hafi fengið góðan hljómgrunn og orðið gríðarleg lyftistöng fyrir bæjarfélagið,  er þessu verkefni er alls ekki lokið. Það er enn í þróun og vinnslu.  Endurgerð á "Gamla ríkinu" gæti vel fallið að þessu verkefni og er það mín von að við finnum í sameiningu leið til að finna þessu húsi hlutverk í okkar gamalgróna bæ.  


Jólakortið komið.

Þá er jólakortið frá Jósef komið. Það er til allra íbúa Seyðisfjarðar og ég held að það sé til allra Íslendinga.

Jósef er nefnilega mikill Íslandsvinur. Hann er 80 ára svisslendingur sem hefur eytt 3-4 mánuðum á hverju sumri undanfarin 25 ár. Finnst honum svona fallegt í Skaftafelli?, kynni einhver að spyrja. Svarið er nei.  

Hann var nokkur sumur á Vestfjörðum og svo undanfarin ár hefur hann verið á mjög fallegum stöðum nálægt Raufarhöfn. Hann fílar örugglega best staði þar sem hann og veðrið og fuglarnir og blómin og grösin eru í hlýjum vindi síðdegisins, eða þá nöprum vindi morgunsins. 

Hann er sem sagt að leita að því tækifæri að vera einn í friðsamri náttúru.  Því ef maður er það þá er maður hluti af henni.

jolakvedja-josef


Á að friða hverja fúaspýtu?

 

Nokkuð hefur borið á því í umræðunni undanfarna daga, að "ríkismálið" eða Valhallarmálið snúist um hvað sé löglegt og hvað ekki, og eins að friða eigi hvaða fúaspýtu sem er. 

Samkvæmt lögum um húsfriðarnefnd eru friðunarmörk húsa, þeas sjálfvirk friðun, 1918. Þeas hús sem byggð eru fyrir þann tíma njóta friðunarákvæða.

Þetta hús, þeas Valhöll á Seyðisfirði er byggt árið 1918.  í þessu húsi eru innréttingar sem gerðar voru 1897 og eru taldar elstu verslunarinnréttingar á íslandi.

Það er einkum vegna þeirra, sem þetta gamla hús hefur verið til umfjöllunar um friðun.

Það hefði komið til álita að húsafriðunarnefnd friðaði húsið vegna þeirra. Þá hefði þeirri friðun verið þinglýst. Þetta var ekki gert.

Seyðisfjarðarkaupstaður hefur átt í viðræðum við Fjármálaráðuneytið um það verkefni að húsið yrði endurbætt í sátt við sögu sína og því fengið hlutverk og jafnvel nýr staður.  Heimild til þess er í fjárlagafrumvarpi 2008.

ÁTVR hefur bent á slæmt ástand hússins.  Áfengis og tóbaksverslunin hefur rekið þarna verslun í meiri hluta aldar og ekki sinnt viðhaldi þess.  Það er skylda húseiganda að sinna viðhaldi húsa og skulu þau fá leyfi byggingaryfirvalda til að rífa hús.  Það getur ekki talist eðlilegt að opinber stofnun láti húsnæði sitt drabbast niður áratugum saman, án þess að bæta fyrir það með því að skila húsinu af sér í forsvararandi ástandi.

Þetta mál snýst um virðingu.  Við eigum að sýna menningarverðmætum virðingu, hort sem við erum opinberir starfsmenn að etthvað annað.

Allt tal um að það eigi að friða hverja fúaspýtu,  ber vott um fáfræði og þröngsýni.  Þetta mál snýst ekki um bara einhverjar gamlar spýtur. Öðru nær. 


Menningarverðmæti á að vernda

Þetta er ekki gott mál. Getur verið að einhvers konar sambandsleysi stjórnvalda valdi þessu?

Ps. Sjá skoðanakönnun um gamla vínhúsið! 


mbl.is Innréttingar ríkisins skemmdar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgleg vinnubrögð

Í dag er dimmur dagur á Seyðisfirði.

Stjórnendur Áfengisverslunar Ríkisins senda smiði til að rífa innréttingar úr Áfengisversluninni við Hafnargötu.

Seyðisfjarðarkaupstaður hefur átt í viðræðum við fulltrúa fjármálráðuneytisins og Minjaverndar um yfirtöku og endurnýjun hússins.

Það eru fyrst og fremst innréttingarnar sem gefa þessu húsi sögulegt gildi.

Það er sorglegt að stjórnendur ÁTVR rjúka nú til og láta rífa og stórskemma þessar innréttingar og troða þeim upp í vörubíl. 

Hinn 6. 09 2006 samþykkti bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar heimild til bæjarstjóra um að ganga til viðræðna við Fjármálaráðuneytið um yfirtöku og enduruppbyggingu hússins, eftir fund sem bæjarstjóri átti með skrifstofustjóra Fjármálaráðuneytisins og forstöðumanni Minjaverndar.  Töldu menn hér víst að unnið væri að fjármögnun og frekari vinnslu málsins.

Þessi ákvörðun kemur því eins og köld vatnsgusa á menn hér.


Emil Emilsson kennari

Árið 1982 fluttist ég til Seyðisfjarðar.  Réðst ég sem kennari við Seyðisfjarðarskóla.  Þá var starfandi við skólann hópur gamalgróinna kennara og síðan voru nokkrir yngri. 

Það fór ekki hjá því að ég kynntist Emil Emilsyni nokkuð fljótlega.  Mér fannst hann afar þægilegur í umgengni og ég held að meira ljúfmenni hafi ég varla kynnst.  

Emil sat í bæjarstjórn um árabil og var forystumaður í Skógræktarfélaginu um áratugaskeið.  Fjölskylda hans og okkar litla samfélag hafa misst mikið við fráfall hans.

Hann tók mikinn þátt í starfsemi leikfélagsins og var ég þeirrar ánægju aðnjótandi að taka þátt í eftirminnilegri uppfæslu Leikfélags Seyðisfjarðar á Gullna Hliðinu.  Sjálfur átti ég að leika Pál Postula, en forfallaðist vegna hettusóttar, illu heilli.  En Emil leysti hlutverk Jóns af hólmi með stakri prýði í þessari afmælissýningu.  

emil og Tryggvi Árið 2004 var tré við Hafnargötu á Seyðisfirði valið tré ársins á Íslandi. Við þá útnefningu var meðfylgjandi mynd tekin af Emil.

Blessuð sé minning hans. 

   


Hóflega drukkið vín ....

... gleður mannsins hjarta.

Þetta er margsannað mál, að smá léttvínsdrykkja, sem nemur einu glasi á dag, er afar heilsusamleg.  Þetta eru niðurstöður margra vísindalegra rannsókna.

Nú er búið að hanna glas  til að menn þurfi ekki að drekka nema eitt glas af léttvíni með matnum.

Glas


Hótel Aldan á Seyðisfirði

aldan 1898Hótel Aldan á Seyðisfirði er það fyrirtæki sem mig langar til að segja ykkur frá.  Þetta hótel tók til starfa árið 2004.  Þá var stofnað fyrirtækið Fjarðaraldan, sem keypti og endurgerði 2 hús til að gera þau að góðu hóteli.  Hugmyndin var að nýta eldri hús og reka hótel í nokkrum húsum. Þetta var nýmæli hérlendis, en á sínar fyrirmyndir í Kanada og á Norðurlöndunum.

Um leið var þetta mikið skref í húsavernd í þessum bæ, sem einkennist af gömlum og glæsilegum húsum.

Þau hús sem voru tekin í notkun sem hótel voru í fyrstu gamli bankinn, sem reyndar var upphaflega byggt sem hótel og Norðurgata 2 sem lengi var verslunarhús, þar er veitingasalurinn.

Síðan bættist við Hótel Snæfell, gamla hótelið við Austurveg.

Herbergi hótelsins eru notaleg og vel búin og veitingasalan hefur vakið athygli fyrir metnaðarfulla stefnu.

Því miður er veitingasalan almennt lokuð yfir veturinn, en hins vegar er veitingastaður í Skaftfelli og matsala í Söluskálanum.

Var að bæta tengli inn á heimasíðu hótelsins.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Halldór Guðmundsson

Höfundur

Jón Halldór Guðmundsson
Jón Halldór Guðmundsson
Höfundur er áhugamaður um landsmál og lífið í kringum sig.

Spurt er

Hvaða Austfirðing muntu kjósa á stjórnlagaþing?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Tónlistarspilari

- Kvöldljóð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband