2 Árekstrar á Fjarðarheiði í dag.

Ástæða er til að fara með mikilli gát á Fjarðarheiði núna.

Í dag hafa orðið þar 2 árekstrar.  Í öðru tilvikinu skall bifreið á moksturstæki.

Há göng eru á heiðinni núna, sem gerir það að verkum að þegar vind hreyfir af kóf og afar slæmt skyggni.

Vegargerðin gerir það sem hún getur og leitast við að hreinsa snjó úr þessum göngum.  En vegna þessara slysa er vegurinn lokaður eins og er, eða tafir vegna þess að unnið er að því að fjarlægja bílana.

bíll snjó

Þau göng sem yrðu mikið öruggari og miklu hagkvæmari í rekstri eru hins vegar jarðgöng, en þau koma vonandi sem fyrst. 

Töluverð umferð er á Seyðisfirði í dag, enda mikil blakhelgi í bænum.  

8 lið eigast við í úrslitakeppni 2. deildar.  Þróttur R var að vinna karlakeppnina.

Síðan á eftir fer fram leikur í efstudeild kvenna þar sem Fylkir og Þróttur Nes keppa.

blak drykkur

Annars er fallegt veður hér í bæ núna og ekkert annað sem skyggir á lífsgleðina en erfiðar samgöngur. 


Hrós dagsins: Blaksambandið.

Hrós dagsins fær Blaksamband Íslands.

Tilefnið er að úrslitakeppni 2. deildar í blaki fer fram um helgina á Austurlandi.  Nánar tiltekið Seyðisfirði.

Þarna keppa lið frá Norðurlandi,  Austurlandi og Suðurlandi.  Það er ekkert sjálfsagt að allar svona úrslitakeppnir fari fram í Reykjavík.  Blaksambandið er ekkert að gera annað en sanngjarnan hlut mð þessu og stuðla að aukinni grósku íþróttarinnar um allt land.

Við sjáum hvernig liðin í efstu deildum í körfu og handbolta eru öll af suð vestur horninu.

Það er einfaldlega afar erfitt fjárhagslega að gera út topp lið í hópgreinum frá landsbyggðinni.

Þó er réttlætismál að dreifa ferðakostnaði milli íþróttafélaga og einnig er verið að stíga fyrstu skref núna með því að koma upp ferðasjóði Íþróttafélaga.  Nú í vikunni var úthlutað úr honum vegna 2007 í fyrsta skipti. 

Góða blak helgi.


Georg yfir vörubílsstjóra mótmælum?

georg 

Er Hinn ástsæli Georg Bjarnfreðarson aðalskipuleggjandi mótmælenda bílstjóra við olíuverði og fleiru?

Ég held að svo geti verið, eða allavega er kominn augljós misskilningur í málið, ef að betur er gáð.

Hækkanir á bílaeldsneyti, það er að segja bensíni og dísilolíu að undanförnu eiga sér aðallega rætur í lækkun á íslensku krónunni.  Þá hefur hækkað heimsmarkaðsverð enn bætt í.  Ríkið hefur ekki aukið skattlagningu sína og komið hefur fram að skattlagning ríkisins á bílaeldsneyti er síst meira hér en í öðrum löndum Vestur Evrópu.  Þannig að það að mótmælin beinist að ríkinu er í sjálfu sér einn stór misskilningur, eins og alltaf þegar Georg er búinn að gera einhverja vitleysuna.

Þá eru vörubílstjórar einnig að mótmæla hvíldarákvæðum samgönguyfirvalda, sem setja þeim takmörk um vinnuframlag.  Samkvæmt upplýsingum Samgönguyfirvalda eru þessar reglur sem um þessa hluti gilda, Evrópskar reglur sem við verðum að viðhalda hér, sem hluti af Evrópska Efnahagssvæðinu og eru okkar reglur síst strangari en tilefni er gefið til.  Þannig að einnig þessi mótmæli eru byggð á misskilningi hjá Georgi og félögum.

Hið hækkaða verð á olíu á heimsmarkaði snýst eingöngu um hækkun vegna þess að eftirspurn er meiri en framboð.  Hvað er þá til ráða hjá okkur?  Auðvitað eigum við að stuðla að sparnaði á olíu með ymsum ráðum! Efla almenningssamgöngur gæti verið ein leiðin. Önnur að breyta skattlagningu og einkum vörugjöldum á ökutæki.  Í dag  eru meðalstórir og litlir fólksbílar með allt að 45% vörugjaldi, meðan stórir bensíndrekkandi pikkuppar eru vörugjaldslausir.  Þarna má breyta til að gera bílaflotann hagkvæmari og umhverfisvænni.

króna evra

En aðalástæðan fyrir olíuverðhækkunum undanfarið er auðvitað eins og við flest vitum.  Lækkun á gengi krónunnar.  Kannski eru vörubílsstjórarnir að ganga erinda Evrusinna og eru í raun aðeins að færa mál sitt í dulbúning.  Vita að fyrr en síðar beinast böndin að sjálfu vandamálinu. Lágu gengi krónunnar!

   


Um hlutverk ráðherra.

Athyglisvert sjónarhorn hjá Árna.  Ég læt mér koma til hugar að það væri skrýtin ríkisstjórn sem væri skipuð fulltrúum sjónarmiða hagsmunaaðila á hverju sviði.  

Hvernig ríkisstjórn væri þetta:

ráðherrar

Umhverfisráðherra:  Talsmaður landverndar, Árni Finnson.

Landbúnaðaráðherra og Sjávarútvegs; skipaður af bændasamtökunum hálft kjörtímabilið og LÍU hinn helminginn.

Menntamálaráðherra:  Skipaður af kennarasamtökunum.

Dóms- og kirkjumálaráðherra: Gunnar í Krossinum helming tímans og formaður lögreglufélagsins hinn helminginn.

Utanríkisráðherra:  Stjórnarmaður Iceland Air?

Viðskiptaráðherra:  Jóhannes Gunnarsson neytendafrömuður.

Iðnaðarráðherra:  Hagfræðingur iðnrekenda.

Fjármálaráðherra: Talsmaður eldri borgara.

Félagsmálaráðherra: Talsmaður fatlaðra.

Kannki bara ágæt samsetning? 

 

 


mbl.is Umhverfisráðherra „brást hlutverki sínu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langir 27 kílómetrar?

Já, mjög langir fyrir sjúklinginn sem þurfti að liggja í 5 klst þegar verið var að hjálpa sjúkrabílnum á Seyðisfirði yfir heiðina.

sjukrabill

Guðni og Reynir stilltu sér upp við Söluskálann þegar þeir komu yfir til Egilsstaða. 


Eldblásari á Fjarðarheiði!

Mikið mæðir á snjóruðningstækjum á Fjarðarheiði.

Það er líka ástæða til að þakka þessum mönnum sem sjá um að halda opnum þessum vegi. Þeir eru hetjur.

EldBlásari


Aðgerðir ónauðsynlegar á Fjarðarheiði?

Rætt er um að mótmælaaðgerðir hafi verið óþarfar á Fjarðaheiði  um helgina og allt fram á mánudag. Þá var heiðin lokuð og í besta falli þungfær vegna óveðurs.

Eru því mótmælaaðgerðir óþarfar á þeirri leið.


mbl.is Tepptu Fagradalsbraut og Egilsstaðanes með lúshægum akstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðasaga.

Ég fór með fjölskyldunni til Reykjavíkur á föstudaginn.

Við flugum suður um kvöldið eftir að hafa farið í kófinu um Fjarðarheiði. Það var ansi blint sumsstaðar, en snjórinn engin fyrirstaða svo sem.

Við gistum hjá frændfólki í Mosfellsbæ.  Það var alveg frábært mál.

Á laugardaginn vorum við mest að slappa af og var ferðin alls ekki verslunarferð, en þó festi ég kaup á gönguskóm, nokkuð uppháum, svona goretex skóm eins og fólk er í í snjó og slabbi.  Veðrið í Reykjavík var gott og enginn snjór, þannig að ég var nærri búinn að hætta við skókaupin. En samt lát ég verða af því.

Um kvöldið lentum við í matarveislu hjá gestgjöfunum og áttum frábært kvöld með þeim.

Á sunnudaginn var fermingardagur Smára.  Fermingin fór fram í Víðistaðakirkju, sem er afar fallegt hús og fermingarathöfnin var hátíðleg og falleg.

Fermingarveislan var svo seinna um daginn og var gaman að hitta ættingja og greinilega naut fermingarbarnið sín mjög vel. Greinilega myndarstrákur og merkilegt að sjá barn breytast í ungling á einum degi.

Á mánudaginn var svo pakkað og haldið á flugvöllinn í fylgd vörubifreiðastjóra,  sem betur fer fylgdu þeir okkur aðeins lítinn hluta leiðarinnar.

Flugið austur gekk afar vel og hittum við reyndar Seyðfirðing á flugvellinum á Egilstöðum sem tjáði okkur að heiðin væri "seinfær" vegna slæms skyggnis.  Héldum við á heiðina í blíðunni á Egilsstöðum.  Veðrið á heiðinni var hins vegar ekki blítt,  heldur vonsku slyddu hríð.  Í norður Fjallinu festum við okkur fyrir ofan nýju brúna og vorum dregin upp.  Fengum við þær upplýsingar að margir bílar væru fastir upp á heiði og yrði reynt að bjarga fólkinu úr þeim, en ekki reynt að ryðja heiðina meðan þetta veður væri.  Það var bæði hvasst og mikil úrkoma og hríðin blaut og þung.  Þarna uppi fór ég út úr bílnum til að átta mig á aðstæðum og varð þá mjög kalt.  Ég var blautur í lappirnar,  þar sem ég hafði gleymt hinum nýju vetrarskóm mínum og var á blankskónum á fjallinu.  Ekki gáfulegt.

Á leiðinni niður festum við okkur aftur og fórum við í sund á Egilsstöðum,  bæði til að drepa tímann og eins til að komast í þurr föt. 

Starfsfólkið þar tók vel á móti okkur og þurrkaði buxur og slíkt.  Var gott að sitja í pottinum þeirra Héraðsmanna og láta ylinn ná sér upp í líkamanum.

Eftir sundið var haldið í söluskálann og setið við kaffidrykkju og alltaf fjölgaði Seyðfirðingunum þar.

Reynir og Guðni komu þangað á Sjúkrabílnum eftir að hafa verið 5 tíma á ferð yfir Fjarðarheiði með sjúkling.  Þetta er alvarlegt mál og lán að akki fór illa þar.

Síðan komu bræðslukarlar að sunnan.  Þier voru að koma úr Helguvík og ætluðu á Seyðisfjörð að bræða þar kolmunna.

Einnig komu Knútur og Lilja að sunnan og hann Hjálmar og Anna úr 7,5 tíma ferð yfir heiðina.

Svo komu Kjartan og Mæja að sunnan keyrandi.  Þau trúðu varla fyrst að Fjarðarheiði væri ófær,  því að Fagridalur væri auður.

Allt þetta fólk fleira til var sem sagt veðurteppt í gær á Héraði og við í minni fjölskyldu fengum okkur bústað á Einarsstöðum í nótt og gistum þar.

Komust síðan heim upp úr 10 í morgun eftir eftirminnilega helgarferð, sem þrátt fyrir allt endaði afar vel.

PS.

Þetta er ekki apríl gabb.


Austfirsku Alparnir stækkaðir!

Forráðamenn Skíðamiðstöðvar Austurlands í Oddsskarði hafa ákveðið að gefa Skíðasvæðinu í Stafdal leyfi til að nota vörumerkið Austfirsku Alparnir.

Í yfirlýsingu sem var að berast frá þeim segir:

Skíðamiðstöð Austurlands hefur ákveðið að leyfa öðrum skíðasvæðum á Mið Austurlandi að nota vörumerkið Austfirsku Alparnir.  Með þessu eru markaðsfæri svæðanna beggja stórefld og möguleikar auknir á að laða að skíðaiðkendur frá Suðurlandi og jafnvel erlendis frá.

Samstarf sveitarfélaga á Austurlandi í gegnum Markaðsstofu Austurlands mun í framhaldinu gefa færi á því að Markaðsstofan beiti sér í auknum mæli að vetrarferðamennsku.

Er það von skíðasvæðanna að þetta samstarf stórefli starfsemi skíðasvæðanna á Austurlandi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Halldór Guðmundsson

Höfundur

Jón Halldór Guðmundsson
Jón Halldór Guðmundsson
Höfundur er áhugamaður um landsmál og lífið í kringum sig.

Spurt er

Hvaða Austfirðing muntu kjósa á stjórnlagaþing?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Tónlistarspilari

- Kvöldljóð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband