Umferðarblogg!

Mér skilst að umferðin sé breytt í Reykjavík.  Mun minni umferð, vegna þess að nú hugsar fólk sig um hvort þörf sé á þessum þeytingi og ein hræða í bíl borgarenda á milli.

umferð

Þetta er jákvætt.

Í kvöld skrapp ég upp í Hérað á fótboltaleik.  Tók ég 12 ára gutta með.

Á leiðinni heim keyrðum við fram á hreindýrahjörð ca. 60-70 stk sem voru að fara yfir veginn.  Þau voru svo róleg og virtust bara gær.  Krakkarnir sem voru með mér voru mjög hrifin af þessari lífsreynslu og höfðu aldrei séð hreindýr svona nálægt sér.  Hvar eru þau á veturna? spurðu þau.  Af hverju sjáum við þau svo sjaldan?

 hreindýr

  Ég sagði þeim (og þóttist nú vita allt um lífshætti hreindýra) að þau væri upp við Snæfell á sumrin, en færðust neðar í fjöllin á veturna og kæmu meira segja í húsagarða á Seyðisfirði, þegar þungir og harðir vetur væru.

Þetta þótti blessuðum börnunum merkilegt og ég held að þau hafi bara verið afar ánægð með þessa ferð í kvöld. 

 


Palestínskir flóttamenn til Seyðisfjarðar?

Töluverður áhugi er á því meðal íbúa Seyðisfjarðar að bjóða ríkisstjórninni að taka við flóttamönnum sem hingað koma, jafnvel að unnt sé að taka á móti Palestínumönnunum sem eru væntanlegir til okkar.

Hér í bæ er öll almenn þjónusta til staðar og víðsýnt og umburðarlynt fólk.

Væntanlega þyrfti að byggja einhevrjar íbúðir fljótlega,  en leysa mætti bráðavanda með því að fá eitthvað af vinnubúðum frá Kárahnjúkum hingað. 


Um dómara og drengilega keppni.

Í kvöld lauk Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu. 
Leikurinn var mikil skemmtun og einn albesti leikur sem ég hef séð lengi.
Hann var svo jafn að í raun varð óhapp einstaklings til að  sigurinn féll þessu liði í skaut, en ekki hinu.  
En svona er drengileg keppni, annað liðið sigrar og gleðst, en hitt liðið tapar, verður vonsvikið, en reynir að bera tapið með reisn.
 
En íþróttir geta átt sínar skuggahliðar.

Mér verður hugsað aftur til ársins 1975.  Það ár léku Leeds United og Bayern um Evrópumeistaratitilinn.  Það er mín skoðun að dómarinn hafi haft afgerandi áhrif á hver sigraði þann leik.

Þetta myndband sýnir trúlega hvers vegna.

 

http://www.youtube.com/watch?v=7-zB6xIx3qg&feature=related

 

Margir sögðu að áhangendur Leeds hefðu hagað sér sem hver annar skríll í leikslok.

Dómarinn Michel Kitabdjian dæmdi hins vegar þarna sinn síðasta leik.

 



Ég elska sólarlönd!

Mér líður vel í góðu veðri og hlýindum og hita.  Og sól og heitur sandur, það er góð blanda.

Og þegar mér bauðst að vera í sólarlöndum eftir nokkra daga þurfti ég ekki að hugsa mig um.

Vorið er líka búið að vera svo kalt hér austanlands og það eru ekki margir dagar síðan það var snjór í garðinum mínum.

strönd Eitthvað þessu líkt bíður mín á mánudaginn.

29 stiga hiti og sól og bara næs. Frábært.

 

 

 

 

 

 

 

 Veðurspáin fyrir mánudaginn á austurlandi er sem sagt 30 stiga hiti og sól og sæla.

 Táknin og hitatölurnar koma ekki fam á kortinu, en það á að standa 29 stig á Austurlandi (11 í Reykjavík).

veðurspá


Kjördæmakeppnin

Um síðustu helgi tók ég þátt í kjördæmakeppni á Stykkishólmi.  Fór ég með makker mínum Unnari Jósepssyni og varþessi ferð frábær hjá okkur félögunum og í raun stóð næstum allt lið Austurlands sig afar vel og vorum við hársbreidd frá verðlaunasæti.

Liðin sem keppa á þessu móti eru lið gömlu kördæmanna 8 og auk þeirra senda Færeyjar lið í mótið.

Það sem var óvenjulegt við það lið sem Austurland sendi var til dæmis það að þarna keppti enginn af "Kristmönnunum" eða Kristmannssonunum.

Það vantaði sem sagt nokrra góða spilara, en samt var liðið vel mannað og allir spilararnir sem fóru eru í fínu formi og ekkert út á það að setja.

Þeir félagar Maggi Ásgríms og Sigurþór Sigurðsson voru í öðru sæti í árangri einstakra para og ég og makker nr 12 af 70 og eitthvað pörum.

Landsliðsmaður okkar, Bjarni Einarsson leiddi liðiu á fyrsta borði og var gróflega góður að vanda.

En sem sagt, góð ferð vestur.

 


Stykkishólmsferð

Ég fór til Stykkishólms um helgina.  Það verður að segjast að þessi bær er afar fallegur að mörgu leyti.  Þarna eru mörg falleg gömul hús og þarna er ferjustaður og þarna er sýslumannsembætti og mikill menningarbær.  Allt þetta á bærinn sameiginlegt með Seyðisfirði.

Og þarna er verið að byggja tréskip í skipasmíðastöðinni og er það smíðað á líkan hátt og Gauksstaðaskipið.  Hér á Seyðisfirði var mikill skipasmíðaiðnaður í marga áratugi, eins og alkunna er.  Við ættum að skoða vel hvað við getum sem byggir á þeirri arfleifð?

Annað sem þeir gera í Hólminum.  Þei flokka allt sorp, bæði frá heimilum og fyrirtækjum.

Hér hjá okkur er allt sorp urðað upp í Héraði og umræða um sorpmál nær ekki lengra en það að semja við Hérana hvað þeir rukka okkur mikið fyrir að taka við því.

Í þessu sviði getum við svo sannarlega gert betur! 

 

 


Kjördæmakeppni.

Nú um helgina fer fram kjördæmakeppni í bridge. 

Keppni að þessu sinni fer fram á Stykkishólmi og etja hin 8 gömlu kjördæmi kappi auk Færeyja.

Keppnisformið er að sjálfsögu sveitakeppni. Unnt er að fylgjast með mótinu á netinu á slóðinni bridge.is.

bridge

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að vera valinn í liðið að þessu sinni og verður því ansi lítið bloggað næstu dagana.

Ég er sem sagt kominn í allhastarlegt blogg frí og ekkert víst að ég bloggi neitt í langan,  langan tíma.

Ekki nema þið lesendur góðir mótmælið kröftuglega. 

 


Boltinn rúlar!

Það er þannig að eitt að því sem setur mestan svip á líf margra á sumrin er fótbolti.

Seyðisfjörður er þar engin undantekning.

Liðið hér í bæ nefnist Huginn og hefur vakið athygli fyrir oft á tíðum skemmtilega knattspyrnu og svo þykir frábær stemming í kringum liðið.  Að koma á völlinn á Seyðisfirði er á suman hátt svipað og að fara á Nou Camp, segja þeir allra hörðustu.

En liðið leikur í sumar í 3. deild.  Liðið hefur orðið fyrir gífurlegri blóðtöku síðan í fyrrasumar. Liðið hefur misst marga af sínum sterkustu einstaklingum,  það er rétt.

Í haust var leitað til mín um að vera í stjórn knattspyrnudeildarinnar og tók á það að mér,  því ég hef þá trú að það hafi afar mikið gildi fyrir bæinn,  fólkið og ekki síst unga fólkið að hafa hér lið í íþrótt sem bærinn hefur mikinn áhuga á.

Einkum er þetta mikil lífsfylling og hluti sjálfsmyndar fyrir ungdóminn og í gegnum hana fá margir reynslu og sjálfstraust sem þú yfirfærir yfir á aðra hluti í lífinu.  Þannig er liðið okkar mikil fyrirmynd ungu krakkanna í bænum.

Svo er annað sem mælir eindregið með að við höfum lið hér.  Það er það að hér eru nokkrir afar efnilegir og góðir unglingar sem eru að vaxa upp í að verða fullburða knattspyrnumenn.  Reyndar flest strákar sem þurfa sinn vettvang,  sín tækifæri,  þó að sumir þeirra hafi ekki líkamsburði til að spila af hörku við fullorðna.  En sá tími nálgast hratt,  get ég sagt ykkur.

Við höfum fylgst með ungum strákum stíga sín fyrstu skref hér í Huginsliðinu.  Þeir hafa margir náð langt í knattspyrnu og aðrir hafa tekið með sér reynslu úr iþróttastarfinu til að vera kraftmiklir á sinni lífsleið.  Slíkt má ekki gleymast heldur.

Burðarstykkið í liðinu okkar eru leikmenn með nokkurra ára reynslu úr 2. og 3. deild og jafnvel ofar.  Síðan höfum við náð að krækja í leikmenn annars staðar af Austurlandi og loks koma 3 leikmenn erlendis frá til að styrkja hópinn.

Fyrsti leikur Hugins er eftir viku og ég vona að starfið í meistaraflokki verði skemmtilegt og gefandi og liðinu og bænum okkar til sóma.

Góðar stundir. 


Opnun "á Seyði"

Nú um helgina hefst listahátíðin á Seyði á Seyðisfirði.

Mér skilst að hátíðin verði formlega sett með hátíðlegri dagskrá 19. maí kl. 14.00.

Hátíðin stendur meira og minna í allt sumar,  og meðal helstu atriða má nefna tónleika í Bláu Kirkjunni, Lunga listahátíð Ungs fólks og myndlistarsýningar í Skaftfelli.

á seyði


Dagur á Skálanesi.

Í dag var ég á Skálanesi.

Fórum við þrír meðlimir í garðyrkjudeild Hugins að ganga frá hólmum og lækjum við Náttúrusetrið á Skálnesi.

skálanes

Fólst verkefnið í því að bera gamalt hey í sár sem myndast höfðu við læki og tjarnir sem gæsir og endur hverskonar una sér svo vel í við Skálanes.

Skálanes er eins og áður sagði náttúru- og menningarsetur yst við sunnaverðan Seyðisfjörð.

Er það útsýni ein sú fegursta á landi hér. Það er einnig eitt fjölþættasta fuglalíf sem finnst hér við land. Þarna er fuglabjarg, æðarvarp, venjulegt mólendi og varpstaður gæsa. Þarna er líka veðursælt og lygnt og kyrrlátur staður.  Undir Skálanesbjarginu eru gjöful fiskimið, sem Seyðfirðingar hafa barist fyrir að verði lokað fyrir snurvoð.

Verið er að endurbyggja húsið og verður þar góð gistiaðstaða og frábærlega skemmtileg stór sólstofa, þar sem unnt verður að sitja og njóta veitinga.

Nokkrir menn eru að vinna þarna þessa dagana og fengum við á hádegisverðarborðið meðal annars hnísukjöt, en slíkt hefi ég eigi bragðað fyrr.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Halldór Guðmundsson

Höfundur

Jón Halldór Guðmundsson
Jón Halldór Guðmundsson
Höfundur er áhugamaður um landsmál og lífið í kringum sig.

Spurt er

Hvaða Austfirðing muntu kjósa á stjórnlagaþing?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Tónlistarspilari

- Kvöldljóð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband