Sjávarútvegur í óvissu!

Ég fékk inn um bréflúguna heima hjá mér fundarboð um fund um sjávarútvegsmál sem haldinn var í Valhöll á Eskifirði  mánudaginn 8. Febrúar kl. 17.00.   Var boðað til fundarins af Fjarðarbyggð, Seyðisfjarðarkaupstað og Útvegsmannafélagi Austurlands. 

Fór ég á fundinn, mest í forvitnisskyni  og fannst hann mun betri og málefnalegfri en ég átti von á. 

 

Í ræðu Gunnþórs Ingvasonar kom fram að á dögum kvótakerfisins hefur verðmæti sjárafla aukist, en aflamagn minnkað og störfum snarfækkað.  Hann taldi að við gætum aldrei endurheimt glötuð störf, því öflugri og tæknivæddari skip og stærri einingar væru lykillinn að hagræðingu í greininni. Við getum sem sagt ekki bæði fengið meiri arð úr greininni og fjölgað störfum.  Hann sagði að Síldarvinnslan hefði átt þátt í að leggja niður vinnslustöðvar, það hefði verið sársaukafullt fyrir suma, en að sínu mati nauðsynlegt.  Hann kallaði eftir rekstraröryggi í greininni og kvað hugmyndir um fyrningarleið spor í ranga átt hvað það snertir. Var ræða hans mjög málefnaleg og dró hann síður en svo upp glansmynd af stöðu greinarinnar, sem hefur verið mergsogin af rangri gengisstefnu stjórnvalda og  óþarfi er að nefna þá fjármuni sem hafa verið teknir út úr greininni vegna framsals fiskveiðiheimilda.

Smári Geirsson bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð flutti góða ræðu, eins og við var að búast af honum. Hann kvaðst kjósa að fjalla um þessi mál út frá hagsmunum síns byggðarlags, en ekki flokkshagsmunum.  Í ræðu hans kom fram að æskilegast væri að sátt næðist um sjávarútvegsmálin, en þær illvígu deilur sem upp rísa fyrir hverjar kosningar um grundvöll helstu atvinnugreinar landsmanna væru ekki af hinu góða.  Brýnt væri að allir aðilar sköpuðu frið um greinina, sá friður skapast að sjálfsögðu ekki með því að hagsmunaaðilar neiti samstarfi aðra nema þeir ráði einir öllu, eins og mörg dæmi eru um í þessum efnum.

Sverrir Albertsson ræddi um allt það sukk sem tengist kvótabraski liðinna ára og benti á að það væru ekki núverandi útvegsmenn sem hefði með gjörðum sínum framkallað úlfúð og reiði almennings í garð sjávarútvegsins, heldur miklu fremur þeir sem hefðu selt sig úr greininni og sætu á sólarströnd og drykkju Margaríta.  Einnig lagðist hann alfarið gegn afnámi sjómannaafsláttar.

Björn Valur Gíslason þingmaður kjördæmisins flutti ágæta ræðu um störf sáttanefndar.  Sú nefnd er sett á laggirnar af ríkisstjórninni til að leita sátta um stefnuna í sjávarútvegsmálum.  Þar eiga aðkomu stéttarfélög, samtök sveitarfélaga, stjórnmálaflokkar og  útgerðarmenn og virðist ekki svo langt í land með að ná sátt um sjávarútvegsmálin, ef marka má orð Björn Vals.  LÍÚ hafa starfað í nefndinni en nú nýverið hafa þeir ekki sótt fundi hópsins, sem er slæmt, því mikilvægt er að allir hagsmunaaðilar komi að borðinu.

Að mínu viti voru niðurstöður fundarins afar skýrar.

Sjávarútvegur á Íslandi er burðarás okkar atvinnulífs og aldrei hefur verið mikilvægara en nú að tryggja rekstrarforsendur greinarinnar til framtíðar.

Sjávarútvegurinn líður fyrir skuldsetningu greinarinnar sem kom til með tvennu móti.  Stefna stjórnvalda í gengismálum, þar sem gengi krónunnar var alltof hátt skráð,  leiddi til langvarandi tapreksturs greinarinnar. 

Mikið fjármagn hefur verið tekið út úr greininni vegna sölu aflaheimilda og er almenningur alfarið á móti þessum þætti í núverandi kvótakerfi og er þessi þáttur trúlega rótin að þeim ófrið sem verið hefur um kvótakerfið.

Málshefjendur á fundinum virtust sammála um að svokölluð fyrningarleið er engin bót á ofangreindum þáttum, heldur binda menn vonir við starf sáttanefndar og vonast til að finna megi leiðir á þeim vettvangi til að lægja þær deilur sem verið hafa um sjávarútvegsmál undanfarin ár.  Þess vegna eigi LÍÚ að hætta öllum hótunum og leggja sit að mörkum í sáttanefnd.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Katrín Árnadóttir

Þakka þér fyrir þessar upplýsingar Jón. Mig langaði mikið á þennan fund en komst ekki vegna vinnu. Ég heyri það einnig hjá æ fleiri sjómönnum að þeir eru síður en svo ánægðir með framgöngu LíÚ manna. Þeir hafa hins vegar alltaf verið undir hælnum á þeim og óttast sjálfsagt atvinnumissi ef þeir mótmæla opinberlega. Það er einnig með ólíkindum hjá LÍÚ mönnum að draga þá að samningarborðinu á forsendum sjómannaafsláttar, Þegar það ættu að vera í raun Útgerðarmenn sem ættu bæta sjómönnum upp þá skerðingu sem þeir yrðu fyrir ef sjómannaafslátturinn verður tekinn af.Ég ætla að leyfa mér að deila þessari grein með fésvinum mínum.

Guðrún Katrín Árnadóttir, 13.2.2010 kl. 13:19

2 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Fín samantekt hjá þér Jón.

En kvótakerfið er ljótur blettur á sögu Íslendinga og þegar sagan verður skrifuð eftir 90 ár og öldin okkar, 21 öldin gerð upp, þá mun fólk spyrja. Hvað voru forfeður okkar að hugsa á þessum árum, voru þeir óskrifandi og ólesandi?

Það má taka undir orð Þorvaldar Gylfasonar sem hann flutti á Borgarafundi fyrir fullum sal Háskólabíós stuttu eftir hrun. "Kvótakerfið varðaði veginn inn í sjálftökusamfélagið".

Sjálftökusamfélagið kostaði okkur hrunadansinn.

Hvort fyrningarleið eða önnur leið er betri veit ég ekki um, en við verðum að vinda ofan af vandamálinu og koma öllum aflaheimildum í hendur réttra aðila, þ.e. til þjóðarinnar.

Við, eigendur auðlindarinnar eigum ekki að óttast grátkór útgerðarmanna og hræðsluáróður þeirra. Þeir eiga í hótunum núna og hótuðu fyrir skömmu að sigla í land. Skörungurinn Ólína Þorvarðardóttir kom mið krók á móti bragði og hótaði að taka kvótan af þeim. Þá áttuðu þeir sig á því feigðarflani. Enginn er ómissandi.

Ég las í Fréttablaðinu, föstudaginn 12. febrúar ágæta grein eftir Guðjón Ingólfsson. Bar hún nafnið Markmið fyrningarleiðar. Þar kemur fram mjög athyglisverð útfærsla á því hvernig veiða á kvótann sem kemur inn á ári hverju. Snýst það um að veiðin verði umhverfisvæn og lágmarks orkunotkun. Einnig að veiðiheimildum verði dreift um landið.

Botnvarpan er stórhættuleg fyrir sjávarbotninn. Þetta eru mjög athyglisverðar hugmyndir hjá Guðjóni og nauðsynlegt að hafa þær í huga. Erfiðlega hefur gengið að fá stórútgerðarmenn til að hugsa öðruvísi og til framtíðar.  Þetta er nauðsynlegt skref fyrir hið Nýja Ísland.

Sigurpáll Ingibergsson, 13.2.2010 kl. 13:24

3 Smámynd: Guðrún Katrín Árnadóttir

Heyr, heyr, tek hatt minn ofan fyrir þér Sigurpáll. Mikið er ég sammála þér.Það er staðreynd að vegna ofurveðsetningar sjávarútvegsfyrirtækja þá eiga einhver þeirra eftir að fara á hausinn hvort sem fyrningarleið verður farin eður ei. þetta eru staðreyndir sem blasa við okkur. Erlendir bankar hafa þegar gert kröfu um kvótann vegna veðsetningar. Sem betur fer getum við þakkað Jóni Baldvinni fyrir að erlendir lánadrotnar ekki gert þessa kröfu. Jón barðist nefnilega fyrir því að halda inni ákvæði 1.gr. fiskveistjórnunnarlaganna það sem segir að fiskur sé sameiginleg auðlind Íslendinga.

Guðrún Katrín Árnadóttir, 13.2.2010 kl. 15:31

4 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Ég tek eftir því að Sigurpáll heldur því fram að botnvarpan sé hættuleg fyrir hafsbotninn.  Smábátasjómenn á Seyðisfirði og bæjarstjórn Seyðisfjarðar hafa viljað láta friða bjargið fyrir snurvoðarveiðum. Þetta breyttist á þessu kjördæmabili, þegar núverndi meirihluti LÍÚ, nei afsakið Sjálfstæðisflokks kúventi afstöðu kaupstaðarins í málinu.

Jón Halldór Guðmundsson, 13.2.2010 kl. 18:52

5 Smámynd: Guðrún Katrín Árnadóttir

Kom þessi umræða ekki fyrst upp hjá fyrverandi meirihluta Jón?  Þegar Tindar og Framsóknarmenn voru í meirihluta? Og var þetta ekki samþykkt af þeim meirihluta, það er eins og mig minnir það ( kannski misminnir mig). Ég vissi raunar ekki að það væri búið að breyta þessari samþykkt en þú segir að núverandi meirihluti hafi breytt henni. Það ætti að sjálfsögðu ekki að koma neinum á óvart. Sjálfstæðismenn hugsa ekki um neitt annað en hagnað og gróða og það er ekki gróðavænlegt að friða einhver landsvæði eða hafsvæði. Þó svo að í mörgum tilfellum kæmi það til með að skapa meiri hagnað en skyndigróðahugsjón Sjáfstæðismanna gerir.

Guðrún Katrín Árnadóttir, 14.2.2010 kl. 10:46

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sælt veri fólkið. Kvótinn og þjóðin, þetta er sem betur fer orðið eitt af stóru málunum í umræðum dagsins. Var áðan að lesa frumvarp frá JB ráðherra sjávarútvegsmála, þar sem útgerðaraðila er gert skylt að láta hvert skip veiða 50% að úthlutuðum kvóta hvert ár.

Þetta ákvæði finnst mér segja ansi mikið um greinina í dag og hvað það er fyrst og fremst sem almenningur er ósáttir við. Það er framsalið eða braskið. Útgerðarmenn hafa það í hendi sinni hvert framboðið er að veiðiheimildum á leigumarkaði hverju sinni og hvert verðið er.

Að gera þeim skylt að veiða helming af heimildum hvers skips er eitthvað sem segir svo ekki verur um villst að hagnaðurinn virðist vera mun meiri af braskinu en veiðunum. Með stig aukinni veiðiskyldu má örugglega ná mun góðum árangri á nokkrum árum.

Þá geta útgerðarmenn ekki vælt um að verið sé að taka heimildir af þeim. Vilji menn hætta eða selja veiðiheimildir  af öðrum ástæðum, er ríkið svo tilúið  til að leysa til sín heimildir með ákveðnum hætti. Það eru margar leiðir úr þessu feni og væntanlega finnast þær bestu sem fyrst.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.2.2010 kl. 02:31

7 identicon

Sæll Jón Halldór!

Þær vekja óneitanlega furðu hjá mér orð þín í athugasemdum  hér fyrir ofan enda eru þau hrein og klár ósannindi m.a. í minn garð en sjálfsagt helgar tilgangurinn meðalið hjá þér! Setning þín sem ég er að vitna í er orðrétt svona: "Þetta breyttist á þessu kjördæmabili, þegar núverndi meirihluti LÍÚ, nei afsakið Sjálfstæðisflokks kúventi afstöðu kaupstaðarins í málinu." 

Ég ætla svo sem ekki að svara hér dylgjum þínum þar sem þú gefur m.a.  í skyn að við séum handbendlar LÍÚ í bæjarstjórn, svona órökstudd skrif hjá þér dæma sig hvort sem er sjálf og því óþarfi að elta ólar við það!

En að halda því fram að við höfum kúvent í þeirri skoðun að friða eigi fjörðinn og fjarðarminnið fyrir dragnótaveiðum er einfaldlega rangt og ég rétt til gamans sló inn á netið þessum leitarorðum og fékk þessa frétt fyrst upp sem er af heimasíðu www.skip.is  og er svona: 

"Seyðisfjörður: Vilja bann á dragnótaveiðum.

30.1.2008

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar vill stækka það svæði úti fyrir firðinum þar sem bannað er að veiða með dragnót. Bæjarstjóra finnst að í ljósi undangenginnar kvótaskerðingar sé eðlilegt að menn hugi að friðunaraðgerðum sem þessum. Ríkisútvarpið skýrði frá þessu.

Bannað er að veiða með dragnót í Seyðisfirði en línan, eins og hún er núna, liggur samhliða fiskimiðum undir svokölluðu Skálanesbjargi en þar eru gjöful fiskimið, sem bannið nær ekki að vernda fyrir dragnótaveiðum eins og því er háttað núna, að sögn Ólafs Sigurðssonar bæjarstjóra.

Seyðfirðingar vilja loka allt frá Dalatanga í Álftarvíkurtanga en við slíkt bann myndi Loðmundarfjörður lokast líka. Ólafur segist vona að sjávarútvegsráðuneytið, sem hefur ákvörðunarvald í þessum málum, taki vel í bón Seyðfirðinga." 

Ómar B.

Ómar Bogason (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 17:14

8 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Friðun grunnslóðarinnar undir Skálanesbjargi er verkefni sem fyrri meirihluti vann einbeittur að. Reynt var að þrýsta á sjávarútvegsráðuneytið að friða þetta veiðisvæði fyrir dragnótaveiðum. Í byrjun núlíðandi kjörtímabils hélt núverandi bæjarstjórnarmeirihluti áfram þessari stefnu eins og Ómar sýnir svo vel fram á hér að ofan.

Síðan fyrir eitthvað einu og hálfu ári gáfust Ómar og félagar upp á þessu, hugsanlegt er að þeir hafi aldrei dregið til baka ályktanir sínar í þessum efnum, heldur bara ákveðið að gefast upp.

Ég veit að Ómar þekkir þetta mál betur en ég, enda er hann í bæjarráði, bæjarstjórn og var um tíma jafnframt þessum trúnaðarstörfum á launum sem fjármálastjóri bæjarfélagsins.

Ég hvet hann til að skýra það á málefnalegan hátt. Það er hans lýðræðislega skylda, í stað þess að slá um sig með fúkyrðum á borð við dylgjur og órökstudd skrif.

Jón Halldór Guðmundsson, 15.2.2010 kl. 23:44

9 Smámynd: Ómar B.

Sæll! 

Ekkert vil ég frekar en málefnalega umræðu Jón Halldór og  sjálf samantekt þín frá fundinum er um margt ágæt finnst mér.  Við vitum að margt þarf að laga í fiskveiðastjórnunarkerfinu en áberandi var andstaðan við fyrningarleiðina á fundinum rétt eins og fram kemur í samantekt þinni.  Þó fyrningarleiðin sé ekki rétta leiðin þá er margt sem þarf að breytast t.d. er það með ólíkindum að enn þann dag í dag skuli menn vera að selja skip og veiðiheimildir dýru verði burt úr sjávarbyggðunum.   

En ég er að sjálfsögðu tilbúinn að ræða þessi mál við þig og aðra hér heima sem það vilja enda ástæða til en ætla hinsvegar ekki að tjá mig meira á þinni síðu Jón Halldór að sinni.

Bestu kv., Ómar B. 

Ómar B., 16.2.2010 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jón Halldór Guðmundsson

Höfundur

Jón Halldór Guðmundsson
Jón Halldór Guðmundsson
Höfundur er áhugamaður um landsmál og lífið í kringum sig.

Spurt er

Hvaða Austfirðing muntu kjósa á stjórnlagaþing?
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 134028

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Tónlistarspilari

- Kvöldljóð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband