Er Norröna einkamál Seyðfirðinga?

Hin mikla og vaxandi umferð með ferjunni Norrönu er stórt hagsmunamál Seyðisfjarðarkaupstaðar og margra íbúa hans.  Þessi starfsemi skapar töluverða atvinnu og er einnig góð og jákvæð auglýsing fyrir bæinn.

Framkvæmdir við uppbyggingu aðstöðu ferjunnar hafa verið kostnaðarsamar og eins og aðrar hafnarframkvæmdir verið kostaðar af mestu leyti af Ríkissjóði.  Hafnarframkvæmdir eru styrktar af ríkinu mismunandi mikið og upp í 90%. Stór hluti af hafnaraðstöðunni vegna ferjunnar var á lægra styrkhlutfalli og framkvæmdir við bílaplön og uppfyllinguna lentu að öllu leyti á sveitarfélaginu.

Þessir ferðamenn sem koma með ferjunni eru að meðaltali 2-3 vikur í landinu og yfirgnæfandi hlutfall þeirra fer hringinn í kringum landið. Meira en 30% þeirra fara á Vestfirði. Af þessu sést að tekjurnar af ferjunni dreifast um allt landið. Það er því í hæsta máta óeðlilegt að Seyðisfjarðarkaupstaður hafi þurft að bera veigamikinn kostnað  af uppbyggingu á aðstöðu fyrir ferjuna.

Síðan er líka umhugsunarvert hvers vegna tolladeildin á Seyðisfirði telur enn aðeins einn fastan starfsmann miðað við það umfang sem er í tollamálum á starfssvæði hans. Þar ber hæst bílferjuna og vaxandi erlent flug á Egilsstaðaflugvelli.

 


Fegrunarfélagið á Hvammstanga 50 ára

Á þessu ári er Fegrunarfélagið á Hvammstanga 50 ára. Það var árið 1957 sem Hörður Þorleifsson læknir, Sigurður Eiríksson vélvirki og fleira fólk stofnuðu félagið. Þau héldu skemmtun á sumardaginn fyrsta, þar sem vetur konungur og fleiri verur voru í aðalhlutverki og farið var í skrúðgöngu um Hvammstanga. Söngur og ljóð voru flutt og þessi hefð hefur haldist fram á þennan dag.

Þau gerðu fleira. Þau hófu skógrækt á þessum stað, þar sem flestir töldu ógerlegt að rækta tré. Norðanáttin og kuldinn og hvassviðrið voru of óhagstæð skilyrði til skógræktar. Þetta var trú almennings í mínum heimahögum, árið sem ég fæddist.

En sem betur fer kom í ljós að frumherjar skógræktar höfðu rétt fyrir sér.

Skógurinn við sjúkrahúsið á Hvammstanga er þess vitni.

Og einnig ræktuðu hjónin Siggi og Lilla skóg á túnskika syðst í bænum. Þar er í dag gróskumikill trjálundur, sem prýðir innkeyrsluna á Hvammstanga.

Með þessu starfi sínu sáði þetta félag áhrifamiklu frækorni á Hvammstanga.

Nú eru margskonar tré og plöntur við húsin á Hvammastanga.

Þökk sé Fegrunarfélaginu.  


Hefur kvótakerfið gengið sér til húðar?

 

Kvótakerfið er að sumu leyti gallagripur. Kosturinn við kerfið er að þeir sem skapa sér mest verðmæti úr aflanum geta helst keypt til sín kvóta. Hins vegar vantar í kerfið það hvetji til að vernda hrygningarstöðvar og svo er það snurvoðin. Hún er búin að eyðileggja svæði á hafsbotninum, þar sem fiskurinn var í friði á grunnslóð. Hún sléttir líka hafsbotninn.

Kannski er það ástæðan fyrir síminnkandi afla í tíð kvótakerfisins?

Smábátaveiðar eru mun umhverfisvænni en veiðar á stórum skipum. Þær menga minna, eyða minni orku, fara vel með hafið. Það gleymist stundum að hafið og hafsbotninn og lífríkið er hluti af náttúru okkar. Föðurland okkar hálft er hafið.

Rétturinn til að veiða sér til matar- og til tekjuöflunar hefur fylgt sjávarjörðum og sjávarbyggðum í aldir.  Samtök sjávarbyggða hafa barist fyrir endurheimt þessara réttinda og mér sýnist að þau hafi nokkuð góðan málstað.

Trúlega er réttlátt,  sanngjarnt og skynsamlegt að gera veg smábátaveiða meiri þjóðinni til hagsbóta.


Dauðarefsingar draga úr morðtíðni

Mér finnst trúlegt að þetta sé rétt, og jafnvel mætti líka fá staðfest að dauðarefsingar dragi úr tíðni á dauðsföllum vegna hvítblæði.


mbl.is Rannsóknir benda til að dauðarefsingar dragi úr morðtíðni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarhreinsun

Í dag var bæjarhreinsun á Seyðisfirði.

Þá skiptu bæjarbúar sér í hópa eftir hverfum og týndu rusl af lóðum, götum, skurðum, görðum, fjörum og plönum.

Í pokanum mínum kom bjórdós, plastpokar, umbúðir af sælgæti, pappír, og fleira og fleira.

Þáttaka var góð í átakinu og bæjarstarfsmenn keyrðu um og hirtu afraksturinn af gangstéttum.

Síðan var boðið upp á grillaðar pylsur og gos á eftir.

Svo er frítt í sund í dag og æsilegt veður, sól og hiti.

 


Ívar tekur á sig sök á fimmta markinu.

Þetta fimmta mark var auðvitað bara slys og ég get vel skilið Ívar og finn með honum að lenda í þessu.

Þegar varnarmistök verða, er stundum hægt að finna blóraböggul, en venjulega eru þetta mistök sem stafa af misskilningi milli manna.

Slæmt gengi Íslenska liðsins stafar að mínu mati fyrst og fremt af því að liðið nær ekki saman og skortir samæfingu.

KSí verður að fá fleiri æfingaleiki fyrir landsliðið.

Við erum með marga ágæta einstaklinga í liðinu. Reyndar spilar það inn í að sumir þeirra eru ekki i toppformi akkúrat núna, en Guðanna bænum, ekki fara að ráðast af einhverjum einstklingum, eða skammast út í Ívar eða þjálfarann eða slíkt. Þeim líður alveg nógu illa samt.  


mbl.is Ívar Ingimarsson, varnarmaður Íslands, tekur á sig sökina af þremur af fimm mörkum Svía
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lónið á Seyðisfirði

í dag og í gær hefur verið frábært veður hér á Seyðisfirði. 

Minn vinnustaður er Sýsluskrifstofan og stendur hún við Lónið, þar sem Fjarðará rennur til sjávar. Í þessu Lóni blandast sjór og vatn.  Í Lóninu miðju er hólmi. Þar sem Lónið er grunnt freistast börn og jafnvel unglingar til að ganga út í Lónið, einkum á fjöru.  Mér er ekkert og vel við þessi uppátæki barnanna, því á botninum er aur og leir og í þessu lífræna lagi gætu leynst glerbrot. En ég var víst einu sinni áhyggjulaust barn og maður má ekki taka bernskuna frá börnunum. 

Í kringum þetta Lón standa gömul hús, flest í norskum stíl,  og setja sjarmerandi stíl á Seyðisfjörð.

Heimamenn og sífellt fleiri ferðamenn njóta veðurblíðunnar hér við Lónið.

Það er fátt betra en að ganga hér um í blíðunni og hlusta á fossaniðinn sem heimamenn heyra ekki lengur, en gestir eru margir mjög hrifnir af.

Á margan hátt er Seyðisfjörður einstakur staður.


Kannski það eigi að endurnýta loforðin?

Valgerður Sverrisdóttir óttast að Kristján Möller muni svíkja loforð sín um Vaðlaheiðargöng.

Það er auðvitað alveg ástæða til að ætla það. Bæði er ekki áætlað nema brot að nauðsynlegum kostnaði til ganganna á samgönguáætlun og svo er hitt að eftir 12 ára valdatíð framsóknar eru mjörg mörg aðkallandi verkefni sem bíða í samgöngumálum. Varla verður því unnt að vinna það allt upp á kjörtímabilinu.

En við skulum vona það með Valgerði að þessi stjórn standi sig betur en sú gamla, en það á eftir að koma í ljós.

Hitt er svo annað mál að við höfum orðið vitni að því að kosningaloforð um jarðgöng eru endurnýtt á Íslandi, og jafnvel þótt þau hafi farið í útboð. Kannski Valgerður hafi einkaleyfi á slíkum loddaraskap??


mbl.is Segir kosningaloforð um Vaðlaheiðargöng svikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn fullkomni sjómannadagur

Í dag er sjómannadagurinn.

Á Seyðisfirði er haldið upp á daginn alla helgina. Dagskráin gæti verið einhvern veginn svona:

Á föstudagskvöldið eru menn að ljúka við að undirbúa hátíðina. Margt er um manninn á Shellskálanum, menn að kaupa kók og prins og sígarettur. Dauf vínlykt finnst að einstaka manni. Brottfluttir Seyðfirðingar, sem simir eru sjómenn eru mættir í bæinn og eru þeir hrókar alls fagnaðar.

Á laugardaginn er byrjað á hópsiglingu. Þá fara trillur og togarinn í siglingu með þorra bæjarbúa út á fjörðinn. Allir fá svala og prinspóló og njóta stemmingarinnar. Stoltir trillueigendur sigla sínum bátum með börnum og barnabörnum, sem öll vinna við fjölskylduútgerðina. Það gefur vel í aðra hönd að beita og róa með línu, hjá farsælum trillukarli.

Eftir hádegið er dagskrá á bæjarbryggjunni. Þá er reiptog milli karlmanna í bræðslunni og Fiskvinnlunni. Ásgeir Emilsson fylgist af áhuga með þessu. Þetta eru hans jól.

Síðan fer kvenfólk í Norðursíld í naglaboðhlaup.  Mikið er hlegið og gleði ríkir.  Himneskur ilmur sjávarlyktar og sígarettu liggur í loftinu.

Koddaslagurinn er hápunktur dagsins. Fyrst prófa sig nokkrir frakkir unglingar, en svo kemur lokaslagurinn.  Ungur strákur sem er á bát frá Eyjum keppir við hraustan háseta af heimatogaranum. Þetta eru greinilega mjög frískir drengir. Baradaganum lýkur með því að báðir detta, og tekst heimamanninum að draga hinn með sér í hafið. Allir fagna þessum málalokum og mikið er hlegið.

Um kvöldið stíga síldarstúlkur dans við vélstjóra og beitningamenn við harmóníkuleik í félagsheimilinu.

Á sunnudaginn er gengið til messu og er vel mætt. Stólræðan fjallar um hættur hafsins og lýkur með blessunarorðum sjómanna til handa.

Síðan er sjómannakaffi í félagsheimilinu. Þegar búið er að bera fram rjúkandi kaffi og girnilega hnallþórur færist sæalusvipur yfir margan handflakarann.

Knattspyrnuleikur er næst á dagskrá og eigast þar við sjómenn í gúmmígalla og stígvélum og lið 9 og 10 ára barna í bænum. Að sjálfsögðu tapa sjómenn leiknum vegna þess að þeir skora sjálfsmark undir lokin.

 

Til hamingju með daginn, sjómenn.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Halldór Guðmundsson

Höfundur

Jón Halldór Guðmundsson
Jón Halldór Guðmundsson
Höfundur er áhugamaður um landsmál og lífið í kringum sig.

Spurt er

Hvaða Austfirðing muntu kjósa á stjórnlagaþing?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 134469

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Tónlistarspilari

- Kvöldljóð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband