Lífshagmunir eða gæluverkefni?

Stundum finnst mér að forgangsröð framkvæmda hjá okkur Íslendingum sé ansi skrýtin.

Mikið hefur verið rætt undanfarið um þörfina fyrir samgöngumbótum víða um land,  en þó ekki síst hér á Austurlandi.  Staðan er einfaldlega sú að samgöngubætur fyrir Seyðisfjörð eru lífsspursmál fyrir byggðarlagið.  Stjórnvöld þurfa einfaldlega að svara því hvort eigi að slá þetta og hitt byggðarlagið af,  eða tengja það Íslandi með jarðgöngum.  Það er til dæmis eina úrræðið til að leysa vandamál Seyðisfjarðar.

göngin góðu

Við höfum ekki úr öðrum kostum að velja,  nema kannski þá þyrlusamgöngum.

En mörg verkefni bíða,  sem sum eru álíka brýn og samgöngubætur fyrir okkur,  og þar sem ekki er unnt að gera allt í einu,  verður að raða samgönguframkvæmdum.

Nú hefur verið aukið við fjármagn til samgangna,  og er það vel.  Það ætti þá að styttast biðin fyrir alla,  eða hvað?

Í sumum tilvikum þola byggðarlögin ekki biðina og vegna samdráttar í sjávarútvegi bætist víða mikill atvinnuvandi við.

Stjórnvöld hafa ýmis verkefni í gangi í byggðamálum.  Svokölluð Norð-Austurnefnd er að störfum og er að vinna að tillögum í atvinnu og byggðamálum fyrir byggðarlög í varnarbaráttu á Norð-Austurlandi.  Það starf lofar góðu og binda menn góðar vonir við það.  En ég sagði áðan að samgöngubótum þarf að forgangsraða,  því ekki er unnt að gera allt í einu.

Þegar minnst er á Austfjarðagöng,  upp á 16-20 milljarða,  benda ýmsir íbúar sunnanlands á hina gríðarlegu þörf fyrir samgöngubætur á Reykjavíkursvæðinu.  Þar kemur fyrir að fólk er kannski meira en hálftíma á leið í vinnu vegna þess að vegakerfið er sprungið.  Það er rétt,  að þetta þarf að laga, ekki mæli ég gegn því.

Hins vegar hrökk ég í kút,  þegar frétt af tónlistarhúsi í Reykjavík greindi frá því að húsið er komið 2 milljarða fram úr áætlun og ef heldur svo fram sem horfir og allt gengur nú sem best eftirleiðis mun húsið kosta 14 milljarða.  Já, 14 milljarða.  Myndskreyting á húsið á að kosta 2 litla milljarða og er það skrautvirki í smíðum í Kína.  Í hvaða postulínsturni búa þeir sem svona ráðstafa almannafé? Spyr ég?  Er ekki allt í lagi?  Eru öll ljós kveikt og enginn heima?

Gætum við ekki notað aurana okkar betur?

 

 


Þurrablót Seyðfirðinga

súrmaturÁ Seyðisfirði hefur verið til siðs að bjóða unglingum og öðrum sem vilja blóta þorra, en ekki Bakkus upp á svokallað þurrablót.

Ég leyfi mér að birta hér fréttatilkynningu um þetta þurra þorrablót: 

Þurrablót Seyðifirðinga verður haldið í Félagsheimilinu Herðubreið miðvikudaginn 6. febrúar kl 20:00.  Þorramatur og fjölbreytt skemmtiatriði.  Meðal efnis:  Valin atriði frá "stóra blótinu",  dansatriði, stuttmynd, skólagrín og kennaratriði.  Vinsamlegast hafið hnífapör meðferðis.  Verð aðeins 1000 krónur og 500 krónur fyrir nemendur Seyðisfjarðarskóla.  Allir velkomnir.  
Þurrablótsnefnd


Fólk vill ábyrgð og stefnufestu

Þetta er merkileg ræða hjá vorum menntamálaráðherra. Hún segir að almenningur vilji stöðugleika og kyrrð í borgarpólitík. Ég held að þetta sé alveg rétt hjá henni. Það sem meira er að kjósendur vilja líka ábyrgð og stefnufestu. Ekki vingulshátt, ekki það að stór flokkur kaupi áhrif með því að láta einn borgarfulltrúa hafa ómæld áhrif til að sóa fé almennings.

En hvernig geta stóru flokkarnir tryggt það að svona hrossakaupum linni?

Einfaldlega með því að taka ekki þátt í þeim sjálfir.

Ég held að Þorgerður Katrín sé sammála mér.

Ég held að hún sjái að það sem sjálfstæðismenn gerðu í Reykjavík sé ekki rétt. Hún er eiginlega að segja það með orðum sínum.

Hvað finnst ykkur?


mbl.is Fundað í Valhöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er von að úrbætur í samgöngumálum gangi vel eystra

Ef að mikil orka Austfirðinga fer í að mótmæla samgöngubótum á Austurlandi er ekki von að stjórnmálamenn hafi geð í sér til að leggja framfaramálum í samgöngum Austurlands lið.

Umferð um Öxi, þennan að mörgu leyti frumstæða veg, hefur aukist gríðarlega undanfarin ár.

Auðvitað verður vegur í 530 metra hæð stundum ófær, en Vegurinn um Fjarðarheiði sem er eina tenging Seyðisfjarðar við íslenskt samgöngukerfi verður það líka.

Vegabætur á Öxi eru frábært framfaraskref.

Ég skora á okkur alla Austfirðinga að hætta að níða niður skóinn hver af öðrum.

Ég heyrði mikilsmetinn mann kasta fram gagnrýni á veginn um Öxi, með vísan til þess að þjóðvegur 1 ætti að liggja með ströndinni.  Þetta finnast mér skrítin rök enda er íslenskt vegakerfi ekki þannig upp byggt og hefur aldrei verið.


mbl.is Öxin klýfur Austfirðinga í herðar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarðarheiðin, lok lok og læs!!!

Í dag var vonskuveður fram eftir degi á Fjarðarheiði. Það kófaði mikið og var afar blint.  Þess vegna gafst Vegagerðin fljótlega upp á því að halda heiðinni opinni. Frekar skiljanlegt, enda óviðráðanlegar aðstæður.

Samkvæmt þjónustuáætlun á að halda heiðinni opinni til 20.30 á kvöldin, þannig að þegar veðrið var gengið niður milli 5 og 6 í dag, hefði maður haldið að þá yrði heiðin opnuð.  Nei, ekki aldeilis, þrátt fyrir að vindhraðinn væri kominn niður í 10-12 metra á sekúndu var ákveðið að opna ekki í kvöld, en opna bara á morgun í staðinn. Þetta kostar fólk mikil óþægindi og þetta tilvik lýsir furðulegu hugarfari Vegagerðarinnar.

winter_road_condition_T2046 Ferðir um Fjarðarheiði eru mun algengari í dag, en áður var. Nú sækir fjöldi manns vinnu yfir heiðina og ferðir vegna viðskipta, flutninga, skólasóknar og fleira gera þær kröfur  að veginum sé haldið akfærum allan daginn, ef þess er nokkur kostur.


Seyðisfjörður í stríði!

Nú liggur fyrir að hópur múhameðstrúaðra hakkara hefur lýst yfir stríði gegn Seyðisfjarðarkaupstað.

 

Í innslagi frá Sigurpáli Ingibergssyni á þessari bloggsíðu kemur fram:

Það hefur fundist veikleiki í sql-gagnagrunni og hópur sem kallar sig hayalet-hack.com staðið á bak við innbrotið.

Hópurinn gortar sig á innbrotinu á montvefsíðu hakkara. Skrítinn heimur! 

Hér er vefsíða sem segir frá innbroti í október á síðasta ári á sfk.is

Hvað er til ráða til að verjast svona árásum. Það er að vera með vefinn hjá traustum þjónustuaðilum sem uppfæra vélbúnað reglulega og taka afrit. Einnig þurfa hönnuðir vefja að fylgjast vel með og uppfæra hugbúnaðarpakka.

Sigurpáll Ingibergsson, 26.1.2008 kl. 12:57

Þeir beina spjótum sínum að vefsíðu bæjarins til að hefna fyrir ég veit ekki hvað. Ja,há það eru fleiri en Villi í vígahug. 

 


Það sem ekki má!

Hvernig væri að fara að lyfta umræðunni á æðra plan?

Í stað þess að vera að þvæla um Björn Inga og baul á áhorfendapöllum og hvort Magga styður meirihlutann og hvernig grín á að vera í Spaugsstofunni, hvernig væri þá að fara að spjalla um pólitík?

Þá mætti spyrja Gísla Martein um málefni Reykjavíkurflugvallar og hvort hann hafi séð svokallaðan málefnasamning.

Hönnu Birnu og Þorgerði Katrínu um atkvæðagreiðslu í Borgarstjórn Reykjavíkur það sem F Listinn lagði til friðun húsanna við Laugaveg.

Júlíus Vífil um hvort hann sé búinn að útbúa möppu handa Vilhjálmi fyrir minnisblöðin.

Borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um það hvort þessi málefnasamningur sé ekki aðeins málefnaskrá Frjálslynda flokksins og hvort meirihlutinn sé aðeins myndaður til að Vilhjálmur verði aftur borgarstjóri undir lok kjörtímabilsins, áður en hann hættir í pólitík?

En þetta er meðal þess sem ekki má tala um.  Í staðinn á að tala um það sem ekki skiptir máli.

Kannski verður Spaugstofan að setja þessi mál á dagskrá, úr því enginn annar hefur döngun til þess?

 


Umdeildur Wise

Dennis Wise er farinn eftir skamman tíma hjá Leeds. Leeds, sem spilar nú í 3. efstu deild byrjaði frábærlega í haust. Þrátt fyrir frábæra byrjun hefur liðinu gengið illa síðan í nóvember. Nú, þegar fjárhagur liðsins hefur vænkast hefur komið í ljós að Wise hefur ekki getað fengið ti sín sína drauma leikmenn.  Hvort naum fjáráð til leikmannakaupa eða vantrú á Wise ráða þar,  skal ósagt látið.  Hvað sem því líður er Leeds lang stærsta félagið í deildinni og væri í efsta sæti,  ef það hefði ekki fengið sérstaka mínus 15 stiga refsingu í byrjun tímabilsins.

Margir stuðningsmenn Leeds horfa vonsviknir á eftir litla tittinum,  meðan aðrir benda á að daginn sem Poyet fór til Tottenham hafi gengi Leeds snarversnað.

Gustavo Poyet sem var aðstoðarmaður Wise hafi verið lykill bak við árangur liðsins á vellinum.

 


mbl.is Wise hættur hjá Leeds og fer til Newcastle
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorrablótin og Spaugstofan.

Þá er búið að blóta þorrann hér á Seyðisfirði. Blótið var afar vel sótt og tókst frábærlega.  Það er orðið "inn" að fara á þorrablót hjá unga fólkinu og er það vel. 

Það var gott að mörgu leyti að halda blótið í íþróttasalnum. Gott loft og nægilegt pláss og allir skemmtu sér vel.

Skemmtiatriðin voru hæfilega beitt og lífleg.  Vitanlega er innanhreppshúmorinn allsráðandi og smá skot á menn og málefni.  Allt er þetta vel meint, en auðvitað er mögulegt að menn taki grínið óstinnt upp, eins og gerst hefur.

Í sumum sveitum er húmorinn enn óvægnari en hér og fá menn algerlega að heyra það. Þó er reynt að láta þá vera sem eru ekki menn til að bera grínið vera. Hér voru það einkum æðstu menn bæjarins og Örvar sem fengu krítík, enda eru þetta aðalmennirnir hér í bæ.

Hér á Íslandi hefur Spaugstofan verið samviska þjóðarinnar og gegnt svipuðu hlutverki og þorrablót til sveita. Þar hafa þingmenn og ráðherrar fengið marga flenginguna og jafnvel forsetinn, biskupinn og kirkjann líka. Spaugstofunni er ekkert heilagt.

Nú á laugardaginn var borgarpólitíkin megin þema spaugstofunnar, enda ærið tilefni til.

Var nýr borgarstjóri og átök innan framsóknarflokks megin efni, enda búið að vera stöðugt fréttaefni í marga daga.

Spaugstofumenn ákváðu að sýna spaugilegu hliðina á þessum aðilum og gerðu það afar vel. Einn albesti þáturinn hjá þeim.

En nú bregður svo við að upp rísa bloggherir landsins og kvarta og kveina. Það mátti sem sagt hlæja að handleggsbroti forsetans, draga dár að óförum Árna Johnsen árum saman, gera grín að kirkjunni, búa til glæpamynd um Davíð, en ekki þetta. Það mátti ekki hæja á kostnað Ólafs Magnússonar.

Þá vaknar mín spurning:

Er það almenn skoðun bloggara að Ólafur Magnússon sé ekki bógur á borð við biskupinn, Árna Johnsen, Davíð Oddsson og aðra sem hafa verið í forystu í íslensku þjóðfélagi?

Hvað eru þeir að segja með þessu?  


Úr einu í annað.

Það er búið að vera mikið um að vera undanfarna daga og ekki vantar umræðuefnin í kaffistofum og eldhúskrókum landsins.

Efst á baugi er borgarpólítíkin, auðvitað.  Alveg ótrúleg atburðarrás, sem virðist hafa byggst á því láta í veðri vaka við Ólaf Magnússon að VG og sjálfstæðismenn væru að fara saman og þess vegna yrði hann að koma strax í samstarf við þá. Svo mikið lá honum á að honum gafst ekki tími til að athuga hvort flokkurinn hans væri smana sinnis og hann sjálfur.  Sem reynist svo ekki vera og í dag liggur ekki fyrir hve lengi þessi meirihluti getur haldið völdum.

Mér virðist þetta vera frumhlaup hjá Ólafi og athygli mína vakti hve harmi slegnir "bakverðir" Vilhjálms voru á blaðamannafundinum.

Svo eru fötin hans Björns og hinna framsóknarmannanna. Einhver á mínum vinnustað kallaði framsóknarflokkinn framsóknarflottinn. Mismæli, en einnig sannmæli?  Ég held að jólakveðja Guðjóns sem var trúnaðarmál sent 2000 flokksmönnum hljóti að teljast ægilega heimskulegt mál. Kannski ekki æskilegt að fata upp frambjóðendur, en ætli það megi ekki finna annað eins hjá öðrum flokkum, ef grannt væri skoðað. Björn Ingi á mína samúð í þessu máli, og ég vona að menn læri aðeins á þessu.

Skipun dómara er enn til umræðu. Ég skil ekki hvernig heill stjórnmálaflokkur getur varið svona gjörð! Flokkur sem hefur gagnrýnt alræðistilburði austantjalds áratugum saman og talað um spillinguna í ríkisvæðingunni. Kannski er þetta gert til að sýna spillinguna í framkvæmd?

Þorrablót í uppsiglingu á Seyðisfirði. Já í uppsiglingu segi ég, því að nú er blótið búið að sprengja utan af sér Félagsheimilið og þattaka vel á 5. hundrað manns. Íþróttahúsið í bænum verður notað fyrir samkomuna.

Lionsklúbbur Seyðisfjarðar fær svo skamm skamm vikunnar. Þeir héldu sitt þorrablót viku fyrir bóndadag og hvað segir maður um svona lagað. Þetta heitir bráðræði og sæmir ekki sönnum karlmönnum.

Bless að sinni og hó hó. Það er klárt. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Halldór Guðmundsson

Höfundur

Jón Halldór Guðmundsson
Jón Halldór Guðmundsson
Höfundur er áhugamaður um landsmál og lífið í kringum sig.

Spurt er

Hvaða Austfirðing muntu kjósa á stjórnlagaþing?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 134464

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Tónlistarspilari

- Kvöldljóð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband